Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 630  —  446. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55 10. júní 1998.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og einnig um eftirlit með slátrun, vinnslu, pökkun og dreifingu hafbeitar-, vatna- og eldisfisks.

2. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Allar vinnslustöðvar, þar með talin vinnsluskip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skulu hafa tölusett vinnsluleyfi til staðfestingar því að fullnægt sé settum skilyrðum. Sama gildir um fiskmjölsverksmiðjur, framleiðslustöðvar dýrafóðurs úr sjávarafurðum og stöðvar þar sem slátrun, vinnsla eða pökkun hafbeitar-, vatna- og eldisfisks fer fram. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um búnað vinnslustöðva þar sem slátrun á eldisfiski fer fram og um eftirlit með slátrun á eldisfiski.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögin nái til slátrunar á eldisfiski. Gildissvið áðurgildandi laga, nr. 93/1992, um meðferð og vinnslu sjávarafurða, náði til slátrunar á eldisfiski. Því var hins vegar breytt með setningu núgildandi laga, nr. 55/1998. Þar var orðið „slátrun“ fellt brott úr 3. gr. Í greinargerð með frumvarpi því er síðar varð að lögunum segir að gildissvið frumvarpsins nái ekki til eftirlits með slátrun eldisfisks þar sem slíkt eftirlit sé á valdsviði embættis yfirdýralæknis en ekki sjávarútvegsráðuneytis. Þessu ákvæði var ekki breytt við meðferð þingsins.
    Í ljósi þess að óhapp henti nú nýverið í tengslum við slátrun á eldisfiski og jafnframt kom upp óvissa um það hvar skilin liggja á milli eftirlits embættis yfirdýralæknis og eftirlits Fiskistofu sem fer með eftirlit með afurðum alls eldisfisks var nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um verkaskiptingu og ábyrgð og koma í veg fyrir mögulegan tvíverknað. Var málið tekið til umfjöllunar í fiskeldisnefnd sem yfirfór verkferla og tilhögun með það sérstaklega að markmiði að skerpa ábyrgð á eftirlitinu og koma í veg fyrir tvíverknað og þannig ónauðsynlegan kostnaðarauka við eftirlitið. Er frumvarp þetta í samræmi við álit nefndarinnar og er lagt til að eftirlit Fiskistofu taki til slátrunar alls eldisfisks en þannig næst heildstætt eftirlit með allri slátrun á eldisfiski og vinnsluferlum afurðanna eftir að slátrun er lokið. Jafnframt er lagt til að ráðherra verði fengin sérstök heimild til að setja reglugerð er kveði nánar á um búnað vinnslustöðva er hafi leyfi til slátrunar eldisfisks og um eftirlit með slátrun fisksins.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1998,
um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

    Í frumvarpinu er lagt til að ábyrgð á slátrun eldisfisks verði flutt frá embætti yfirdýralæknis til Fiskistofu. Forsaga málsins er sú að á árinu 1992 var ákveðið að eftirlit með slátrun, meðferð, vinnslu og dreifingu eldisfisks félli undir verksvið Fiskistofu. Á árinu 1998 var lögum breytt í þá veru að eftirlit með slátruninni var flutt til embættis yfirdýralæknis en aðrir þættir eftirlitsins voru óbreyttir. Sérstakur dýralæknir fisksjúkdóma hefur haft eftirlitið með höndum ásamt öðrum verkefnum. Með frumvarpi þessu er lagt til að eftirlitið verði fært í fyrra horf þannig að Fiskistofa hafi einnig með höndum eftirlit með slátrun eldisfisksins. Frumvarpið felur því í sér flutning verkefnis innan ríkisins en ekki nýjar kröfur um eftirlit. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað embættis yfirdýralæknis vegna verkefnisins, en talið er að ekki sé um verulegar fjárhæðir að ræða. Embættið hefur ekki tekið gjald fyrir eftirlitið þótt í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sé landbúnaðarráðherra veitt heimild til að setja gjaldskrá fyrir eftirlit og skoðanir. Ekki liggur fyrir hvort útgjöld hjá embætti yfirdýralæknis lækki við flutning verkefnisins, en ljóst þykir að útgjöld Fiskistofu gætu aukist eitthvað en það fer þó væntanlega eftir því hvernig verkefnið er skipulagt. Samkvæmt lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð gjald fyrir þjónustu sem Fiskistofa veitir og verður að reikna með því að hugsanlegur útgjaldaauki verði borinn af tekjum af eftirlitsgjaldi. Miðað við framangreindar forsendur verður ekki séð að þessi breyting hafi viðbótarkostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.